145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með andakt á hæstv. ráðherra fara yfir spurningar og svör við því sem fram kom við 2. umr., ekki bara í dag heldur undanfarna daga, jafnt þegar ráðherrann var vestur á Ísafirði að funda með framsóknarmönnum, í Skagafirði að funda með framsóknarmönnum og í Brussel að funda með framsóknarmönnum, sem kannski eru nokkrir þar.

Mér fannst málsvörn ráðherrans vera sú að þetta væri allt saman einn misskilningur hjá okkur frá upphafi til enda, við skildum ekki ráðherrann og skildum ekki hvað hann væri að fara. Þess vegna held ég að það sé alveg óumflýjanlegt að nefndin komi saman aftur og fari yfir þessi mál. Ég bendi á að ekki hefur verið farið yfir allar umsagnir sem komið hafa við málið. Þar fyrir utan mætti spyrja ráðherra, vegna þess að það kom ekki fram í svörum hans, um þá meðferð (Forseti hringir.) sem formaður nefndarinnar og varaformaður beittu á fundunum tveimur sem haldnir voru með hálfs sólarhrings (Forseti hringir.) eða sólarhrings millibili þar sem málið var í raun rifið úr nefnd án þess að nokkuð væri kannað hvað gestir hefðu fram að færa.