145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að ráðherra sá sér fært að koma loksins til umræðunnar, það var orðið tímabært. Ég verð að taka undir það sem hv. þingflokksformaður Vinstri grænna sagði áðan, það er hægt að lenda þessu máli með góðri niðurstöðu ef vilji er til þess. Í skýrslu utanríkisráðherra, í 16. lið, segir, með leyfi forseta:

„Hvernig fyrirhugað er að tryggja að sátt skapist meðal almennings um þróunarsamvinnu Íslands þrátt fyrir aukna nálægð við stjórnmálin ef af sameiningunni verður.“

Svo er gjarnan talað um sameiningu. Þetta er eiginlega ekki sameining, hér er stofnun að renna inn í ráðuneyti. Það er allt annar handleggur en að sameina tvær stofnanir þannig að í fyrsta lagi er þetta rangnefni. En það ríkir heldur ekki almenn sátt. Almenningur, hver svo sem hann er, hvort það erum við eða einhverjir aðrir sem úti í samfélaginu eru, hvort það er starfsfólkið hjá Þróunarsamvinnustofnun eða aðrir sem hafa áhuga á þessum málum — það ríkir ekki sátt um málaflokkinn. En við getum unnið í þeim anda sem hér hefur verið gert varðandi tvö stór mál sem nefnd voru áðan, náttúruverndarlögin og útlendingamálin.