145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að hér hafi komið fram góðar hugmyndir sem hægt væri að ná sáttum um, eða að minnsta kosti á grundvelli þeirra. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera umhugað um að geta fylgt í fótspor fyrirrennara sinna í Framsóknarflokknum sem alltaf lögðu sig fram um að reyna að hafa þverpólitíska sátt í kringum þróunarsamvinnu. Það hefur reyndar hver einasti ráðherra reynt og ég er viss um að hæstv. ráðherra mælir ekki um hug sér þegar hann segist vilja veg þróunarsamvinnu sem besta. En hann er lentur í svolítilli útideyfu með þann merkilega málaflokk.

Nú er risin upp mikil deila sem sennilega væri hægt að setja niður. Ég held þess vegna að það sé mjög góð hugmynd sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, að við tökum málið aftur inn í utanríkismálanefnd. Freistum þess, til dæmis á grundvelli þeirra hugmynda sem fram koma í skýrslu Þóris Guðmundssonar. Þannig gætum við náð sátt og allir unað þokkalega glaðir við sitt þegar upp væri staðið. Ég held að það væri þjóðráð. Það væri öllum til heilla, hæstv. ráðherra, Alþingi, en kannski fyrst og fremst málaflokknum.