145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það veit á gott að ég færist upp í 7. sæti við næstu kosningar. En varðandi þetta mál þá fannst mér ekkert koma fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan sem rökstyður þennan asa. Hann sagði að allt yrði í raun með sama hætti og áður. Ég get ekki alveg skilið tilganginn með því að fara í þessa vegferð í ósátt við stjórnarandstöðuna og fjölda aðila í þjóðfélaginu og eins starfsmenn þessarar stofnunar og fagaðila í þessu máli.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra sýni að hann er friðarins maður og reyni að leiða til að ná breiðri sátt um málið og vísa þá til þeirra hugmynda sem komið hafa fram í umræðunni, eins og að finna fleiri fleti á málinu. Það kemur líka fram í skýrslu títtnefnds Þóris Guðmundssonar.