145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt nákvæmlega engin ástæða til að taka þetta mál af dagskrá eða fara með það til nefndar. Það hefur ekkert komið fram varðandi málið frá því sem kom fram í umræðum síðasta vetur, það er ekkert nýtt sem hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni í málinu. Þetta eru sömu vangavelturnar og þeim hefur verið svarað meira og minna, kannski ein eða tvær spurningar sem hafa komið fram og þeim hefur þá verið svarað nú þegar.

Það sem mig langar hins vegar að gera fyrst og fremst er að leiðrétta eitt, hér var talað um að fjöldi aðila hefði fjallað um málið, ef ég heyrði rétt. Ég held að fjórar eða fimm umsagnir um málið hafi komið til nefndar. Það telst ekki mikill fjöldi og síst fjöldi þeirra sem hafa þá séð ástæðu til að gefa umsagnir um málið, enda er það þess eðlis að þetta er fyrst og fremst stjórnsýslubreyting. Það er ekki verið að breyta neinu öðru í þróunarsamvinnu.