145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Okkur greinir nefnilega á, þ.e. um hvers lags mál er að ræða. Hér er mikil stefnubreyting á ferð. Það að ekki sé hægt að leysa mál eða að ekki þurfi að gera það að mati ráðherra, finnst mér sýna svolítið yfirlæti, ég verð að segja það. Ég held að hann geti verið okkur sammála um að þegar náttúruverndarlögin voru rædd á síðasta kjörtímabili, og svo hafa þau verið rædd svolítið síðan, hafi kannski margir haldið að ekki væri hægt að setja það mál niður með neinum hætti, það hefði ekkert nýtt komið fram sem hefði breytt einu eða neinu. En raunin varð nú samt sú að það gerðist. Það voru ákveðnar málamiðlanir og ég velti fyrir mér í ljósi þess að mörgum ráðherrum hefur verið gert það tilboð í gegnum tíðina að fara þessa leið en hafa einhverra hluta vegna ekki gert það. En núna telur núverandi hæstv. ráðherra að það sé tímabært, þannig að eitthvað hefur þó augljóslega breyst á öllum þeim árum sem við höfum ekki orðið vör við. Það eitt og sér er bara ástæða til að ræða málið frekar.