145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér blöskraði að heyra orð ráðherrans áðan þegar hann leit svo á að búið væri að ræða þetta mál í þaula á fyrra þingi og þess vegna væri óþarfi að vera með einhverja umræðu um það núna og þetta væri einhver smotteríisstjórnsýslubreytingu o.s.frv. Hvers lags viðhorf eru þetta hjá hæstv. ráðherra gagnvart málatilbúnaði hér á þingi? Auðvitað er það þannig að mál koma hingað til þings og þau eiga að fá eðlilega umfjöllun. En ekki var fjallað almennilega um þær umsagnir sem komu. Nefndarmenn óskuðu eftir því að fá gesti til fundar við nefndina en þeim var synjað um það, málið rifið út á tveim dögum eftir að umsagnarfresti lauk.

Þetta er vinnulagið sem hæstv. ráðherra finnst bara allt í lagi af því að menn ræddu það á einhverju öðru þingi. Eru þetta vinnubrögðin sem verið er að boða hér? Ég verð að segja að þetta eru ekki vinnubrögð sem eru í lagi. En þetta er til marks um það hversu hrokafull þessi ríkisstjórn er og ráðherrar hennar og viðhorf manna eru gagnvart þinginu og það hvernig menn umgangast hér lýðræðið og hvernig menn umgangast minni hluta sem hefur líka sinn rétt.