145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem nú ekki oft hingað upp undir liðnum um fundarstjórn forseta en þá geri ég það venjulega til að reyna að hvetja til friðar og sátta. Það hefur verið í nokkrum málum sem hafa verið í þinginu. Ég er einn af þeim sem hafa haft miklar mætur á hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst hann hafa staðið sig mjög vel í starfi og komið vel fram fyrir Íslands hönd í hinum erfiðustu málum sem við höfum tekist á við á síðustu árum, en mér finnst hann stundum svolítið þrjóskur og í þessu máli er hann það, en hann hefur sínar röksemdir fyrir því hvers vegna.

Þetta er kannski ekki mikilvægasta málið í stjórnmálum dagsins í dag á Íslandi en samt er það mjög mikilvægt í mínum augum, að það ríki um það sátt eins og um náttúruverndarlögin og fleiri mál. Þetta höndlar um það að við erum að hjálpa fátækasta fólki í heimi að bjarga sér og hjálpa því að þróast í átt til betra lífs. Þess vegna finnst mér að það eigi að ríkja um það sátt. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að finna þessa sátt. Þetta er ekki hægt svona.