145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál vera hneyksli. Einu rökin sem hæstv. ráðherra færir fyrir máli sínu eru að einn aðili hafi sagt á einum stað að leið eitt eða leið þrjú, það fer eftir hvernig maður telur, um að stofnunin færi inn í ráðuneytið, væri leiðin sem ætti að fara. Ein skýrsla er ekki nóg. Við vönduð, fagleg, vísindaleg eða sagnfræðileg vinnubrögð þarf að hafa að minnsta kosti þrjár rannsóknir, þrjár óháðar heimildir til að geta lagt mat á einhvern hlut. Þarna eru þrjár tillögur ræddar og meira að segja er vankantur á tillögu þrjú eins og hún kemur fyrir í skýrslunni þannig að það er ekki eins og þetta sé eitthvert heilagt mál. Það er verið að ræða þetta í skýrslunni, það er ekki verið að leggja lokadóm. Ég skil ekki hvernig ráðherra er stætt á því að taka þetta vald og ákveða þetta út frá þessu einsdæmi.