145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í umræðunni áðan komu þrjár tillögur frá Þóri Guðmundssyni á sínum tíma í þessari skýrslu. Ein þeirra hugnaðist honum ekki, sú að hafa í meginatriðum óbreytt fyrirkomulag. Hins vegar var önnur hugmynd um að styrkja stöðu ÞSSÍ og flytja verkefni frá þróunarsamvinnuskrifstofu þess ráðuneytis til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þannig að ráðuneytið færi með eftirlit og eitthvað því um líkt.

Ég velti fyrir mér hversu umdeild slík tillaga yrði ef hún yrði sett hérna fram vegna þess að hér höfum við aðeins karpað um að það eru nokkrir valkostir í stöðunni. Ég verð að segja frá því aftur að ég var á þeim fundi í hv. utanríkismálanefnd þegar málið var tekið út. Á þann fund kom Þórir Guðmundsson og var talað við hann. Þá kom fram að hann taldi þann möguleika að styrkja ÞSSÍ í sjálfu sér ekki síðri en að leggja stofnunina niður. Síðan var engin umræða um þetta, málið var bara tekið út úr nefnd og við þekkjum öll hvernig þetta þróaðist í kjölfarið á því.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður mundi styðja slíka tillögu eða hvaða annmarka hv. þingmaður sæi á henni. Sömuleiðis langar mig að spyrja út í aðra hugmynd sem hefur komið fram og ég velti fyrir mér hvort sé jafn umdeild og sú sem hér liggur fyrir. Ég veit að hún er ekki jafn umdeild en ég velti fyrir mér hvort um hana mundi ríkja sátt. Það er sú tillaga að flytja starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið án þess að leggja stofnunina niður. Það hefur komið fram að það er það sem aðrar þjóðir hafa gert og það er reyndar fordæmi sem Þórir Guðmundsson sótti sína hugmynd í.

Ég óska eftir því að hv. þingmaður fræði okkur aðeins um það hvort sá möguleiki sé raunhæfur, þ.e. ef stjórnarmeirihlutinn væri til í að taka aðeins ríkari þátt í umræðunni, hvort sem væri í nefnd eða í þingsal.