145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir nokkra valkosti. Það er svolítið kúnstugt, eins og við höfum einhverja valkosti! Við í stjórnarandstöðunni eigum bara í samtali því að meiri hlutinn hefur ekki enn gefið færi á neinum samtölum.

Samhljómurinn sem var í umræðu eftir hryðjuverkaárásirnar í París, samhljómurinn sem hæstv. utanríkisráðherra tók þátt í og hæstv. innanríkisráðherra líka — ég sé að þeim er skemmt hér í hliðarsal, ég veit ekki hvað það er nákvæmlega sem vekur þessa kátínu — var óskaplega dýrmætur og náðist í þingsal um þá hluti. Þess vegna árétta ég að eftir því sem þessir málaflokkar þyngjast er mikilvægara að við náum um það einhvers konar sátt. Ég tel að málaflokkinn þurfi að styrkja, að það eigi að vera útgangspunkturinn. Við höfum áhyggjur af þeim þáttum sem lúta að eftirliti þegar verkefnin verða komin inn í ráðuneytið, það er sjálfstætt áhyggjuefni, og það að við skulum vera að vinna með þessi mál í svona fjölbreyttum kúltúr, liggur mér við að segja, að við ætlum að sitja við þverpólitískt borð og ræða ný útlendingalög og við ætlum að ræða með opnum hætti um stóra og mikilvæga málaflokka — en hér á ekki að vera umræða. Í þessum málaflokki á ekki að vera umræða heldur á bara að keyra ákvörðun ráðherra í gegnum þingið. Mér finnst það vera það alvarlegasta hér en ég mundi styðja þá hugmynd sem kom fram í skýrslunni um að styrkja Þróunarsamvinnustofnun Íslands