145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er í annarri ræðu minni um þetta mál; mál sem einhverjir hafa kosið að kalla formbreytingu, eins og hv. þm Brynjar Níelsson gerði hér áðan, en er í raun stærra mál. Ég held að á því séu ýmsar hliðar. Sú fyrsta er sú að við erum að ræða þetta mál, um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, í því samhengi að stefna okkar í þróunarsamvinnu er í uppnámi.

Hér var á síðasta þingi samþykkt afar metnaðarfull áætlun um hvert við Íslendingar vildum stefna í þróunarsamvinnu. Sú stefna var samþykkt á erfiðum tímum í íslenskum ríkisfjármálum, en eigi að síður voru þar lögð til markviss skref í átt að þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um hvað svokallaðar þróaðar þjóðir eiga að leggja af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. Þessi stefna var samþykkt með miklum meiri hluta á þinginu með einu mótatkvæði. Síðan var þessu snúið við í tíð nýrrar ríkisstjórnar og aldrei hafa verið færð nein rök fyrir því önnur en þau að skyndilega töldu menn sig ekki hafa efni á þessu. Menn höfðu efni á því að fara í alls kyns aðgerðir, lækka veiðigjöld, afnema auðlegðarskatt, létta byrðunum á ríkustu Íslendingunum, sem alltaf eiga stærri og stærri hlutdeild í auðnum. Í þær aðgerðir var stjórnarmeirihlutinn reiðubúinn að ráðast, en hann var ekki reiðubúinn að fylgja samþykktri þróunarsamvinnuáætlun heldur var snúið við. Það er ákvörðun sem ég tel til skammar fyrir stjórnarmeirihlutann og fyrir þessa ríkisstjórn. Þetta er eitt af þeim málum sem mér finnst hvað alvarlegust hjá núverandi ríkisstjórn, því að þau snúast um það hvernig menn líta á heiminn, heimsmálin.

Hér erum við Íslendingar enn í hópi ríkustu þjóða heimsins, í 11. sæti ef ég man rétt í nýjasta lista sem er gefinn út yfir efnahagslegt ríkidæmi, og við erum svo langt frá þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að það hálfa væri nóg. Á sama tíma samþykktu Bretar áætlun sem miðaði að því að ná 0,7%. Þeir voru í kreppu. Ég var mjög ósammála mjög mörgu af því sem hægri stjórn Camerons gerði á þeim tíma í innanríkismálum, en ég get ekki annað en sagt: Gott og vel, þessi mál ætla þeir að hefja yfir pólitískar deilur. Þeir setja þessi mál í það samhengi að þó þar í landi séu menn ósammála um hvernig fjármagninu er varið þá beri þeim ákveðin siðferðisleg skylda til að standa undir þessum markmiðum. En hér: Nei, við vorum of blönk. Ellefta ríkasta þjóð heimsins er of blönk til að standa við fyrri áætlanir. Hæstv. ráðherra setti fram í júní tillögu að áætlun þar sem gert var ráð fyrir 0,23% af vergri landsframleiðslu. Hún var ekki kláruð. Hún var ekki afgreidd hér. Síðan kemur frumvarp til fjárlaga og þá er hlutfallið komið niður í 0,21%.

Mér finnst það satt að segja dapurlegt, herra forseti, að sú umræða og sú stefna sem verið er að taka hér á Alþingi Íslendinga um þróunarsamvinnu snýst ekki um það að við ætlum að uppfylla skyldur okkar í samfélagi þjóðanna. Hún snýst ekki um það hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að tryggja friðvænlegri heim. Ekki veitir af því í heiminum eins og ástandið er í dag þar sem sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf fyrir þróunarsamvinnu og eflingu friðsamlegra samskipta á milli fólks.

Ég sagði hér áðan að þróunarsamvinna væri grunnstoð íslensku utanríkisþjónustunnar og ég lít á hana sem eitt af höfuðmarkmiðunum. Hvað getur smáþjóð eins og Íslendingar gert annað en það að miðla öðrum af þekkingu, reynslu og ríkidæmi, miðla öðrum af þeim forréttindum sem við njótum í samfélagi þjóðanna? Þetta ætti að vera okkar höfuðmarkmið, þetta ætti að vera það sem við getum sameinast um, getum verið stolt af. Þrátt fyrir að við deilum hér um innanríkismál þá ættum við að geta sameinast um að líta á þetta sem okkar siðferðislegu skyldu.

En við erum ekki að ræða þetta. Við erum að ræða það að leggja niður þá fagstofnun sem hefur farið með málaflokkinn innan íslensks stjórnkerfis. Það er okkar innlegg til málaflokksins. Mér finnst það satt að segja, herra forseti, ósköp dapurt innlegg.

Þróunarsamvinnustofnun — það hefur komið fram hér í umræðum, og það er það sem mér finnst standa upp úr umræðunni um þetta tiltekna mál, að það hefur ekki nokkur maður, hvorki úr stjórnarliði né stjórnarandstöðu, haft neitt annað um stofnunina að segja en að hún hafi sinnt hlutverki sínu með sóma. Eigi að síður er verið að leggja til að leggja hana niður sem er þvert á aðra þróun í stjórnsýslunni þar sem áhersla hefur verið lögð á að fara með tiltekin framkvæmdaverkefni út í fagstofnanir, styrkja síðan stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk ráðuneyta.

Stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi samþykkti í vor frumvarp um Menntamálastofnun sem var einmitt ætlað að gera það, að færa framkvæmd tiltekinna verkefna út í fagstofnun og skilgreina þannig betur eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk ráðuneytisins. Ýmislegt er hægt að segja um það hvernig nákvæmlega er staðið að því, en það virtist eigi að síður vera línan sem meiri hlutinn tók þá. Stjórnarmeirihlutinn sem nú er, sami stjórnarmeirihluti og var hér fyrir nokkrum mánuðum, talar eins og þetta sé hið besta mál og alveg væri hægt að sameina Vegagerðina eða leggja hana inn í innanríkisráðuneytið. Það er, herra forseti, ekki heil brú í því hvernig menn hugsa þessi mál á ríkisstjórnarheimilinu. Það er engin heildstæð stefna. Það er engin heildstæð hugsun í því hvernig við ætlum að skipta með okkur framkvæmd málaflokka og eftirliti með málaflokkum. Það er ekki rétt að segja um það sem hér hefur komið fram að eftirlitið breytist ekki. Auðvitað breytist það. Nú hefur ráðuneytið eftirlitshlutverki að gegna gagnvart sinni einu fagstofnun, Þróunarsamvinnustofnun. Síðan bætast við aðrir eftirlitsaðilar, Ríkisendurskoðun og óháðir eftirlitsaðilar. Það breytist að sjálfsögðu þegar þessi mál eru færð inn í utanríkisráðuneytið þó að eldveggir séu á milli eins og sagt hefur verið. Þetta hefur verið gert annars staðar, hefur verið haldið fram, vissulega, í miklu stærri einingum þar sem við horfum nánast á sjálfstæðar stofnanir innan ráðuneytanna.

Mörgum spurningum er ósvarað um það hvernig þessar framkvæmdir hafa tekist. Hér hefur verið bent á, í utanríkismálanefnd á síðasta þingi, að farið var í þessa vegferð í Hollandi. Um það var gerð skýrsla. Hún kom ekkert sérstaklega vel út. Hollensk yfirvöld ákváðu að taka ekki mark á þeirri skýrslu, en eigi að síður er hún aðgengileg til lestrar. Þannig að það er vissulega hægt að halda því fram að það krefjist miklu frekari yfirlegu og skoðunar að fara í þessa aðgerð.

Stóra málið, herra forseti, tel ég vera það að hér er verið að ráðast í að færa stofnun undir ráðuneyti, stofnun sem við erum sammála um að hefur staðið sig vel, hefur verið sterk rödd fyrir málaflokkinn, þar sem fagþekking hefur byggst upp og mikilvægum upplýsingum er miðlað, til dæmis í gegnum tímarit sem stofnunin gefur út. Það er verið að taka þessa sérþekkingu og setja hana inn í utanríkisráðuneytið án þess að það sé búið að sjást fyrir hvernig málaflokknum mun reiða af þar innan dyra.

Mér finnst svörin ekki hafa verið sett fram með nægjanlega sannfærandi hætti. Ég hef margoft nefnt þetta með upplýsingamiðlun og veit af eigin raun að upplýsingamiðlun úr ráðuneyti er allt annars eðlis en upplýsingamiðlun úr fagstofnun. Þar nægir að nefna þær óteljandi stofnanir sem við eigum sem hafa sjálfstæði í því hvernig þær miðla upplýsingum, enda eru þær mun fjær hinu pólitíska valdi.

Það verður enginn annar yfirmaður yfir þróunarsamvinnunni eftir þessa breytingu en ráðherra. Hún mun heyra beint undir pólitískt vald. Það er eðlisbreyting. Það er furðuleg eðlisbreyting í ljósi þeirrar stefnu sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur tekið, sem er metnaðarleysi í þessum málaflokki; sem er, að því er virðist, enginn áhugi á að uppfylla þær skyldur sem við berum í samfélagi þjóðanna. Mér finnst nánast, þegar við setjum þetta í samhengi við þá áætlun sem fyrir liggur um þróunarsamvinnuna, að hér sé endanlega verið að fela þennan málaflokk, (Forseti hringir.) færa hann inn í ráðuneyti, gera eins lítið úr honum og hugsast getur, meðan þetta ætti að vera flaggskip í utanríkisstefnu okkar.