145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mikið óskaplega var ég ánægður með inntak og kjarna ræðunnar. Ég hugsa raunar þegar ég horfi til baka þá hafi ég verið í hópi einlægustu, jafnvel hörðustu aðdáenda formanna VG hverjum af öðrum fram. Það er ekki síst vegna þeirrar siðferðilegu nálgunar sem þau hafa bæði haft á þennan málaflokk sem ég tel, eins og formenn VG hafa talið, að sé kjarninn í utanríkisstefnu okkar. Því miður er á vorum tímum fágætt að menn tali með því móti og segi það hreint út að við eigum í hlutfalli við okkar ríkidæmi að láta af höndum rakna til þjóða sem eru enn að brjótast úr sárri fátækt. Það allra svívirðilegasta sem mér finnst hafa gerst á seinni árum er að núverandi ríkisstjórn rauf bókstaflega það samkomulag sem Alþingi Íslendinga hafði gert við blásnauðar þjóðir í Afríku með því að ýta til hliðar, kasta nánast burtu þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti á sínum tíma.

Hv. þingmaður rakti hér tölur. Það er auðvitað alveg óskaplegt að horfa til þess að við, ellefta ríkasta þjóð í heimi, næstríkasta þjóð í Evrópu samkvæmt nýlegum tölum, Íslendingurinn með meðaltekjur í dag er í hópi þessa eina ríkasta eins prósents í heiminum og að við skulum hafa þurft að horfa upp á ríkisstjórn grípa til þess að kasta burtu áætlun, sem þó stjórnarflokkarnir höfðu samþykkt og framhlaðið á sínum tíma, er hræðilegt. Hv. þingmaður rakti það að í fyrra var lögð fram áætlun sem gerði ráð fyrir að núna yrðu framlögin þó að minnsta kosti 0,23% af vergri landsframleiðslu, það er 0,21%. Hæstv. ríkisstjórn stóð ekki við orð sín frá því í fyrra. Það munar 500 milljónum.

Hvað heldur hv. þingmaður að muni frá áætluninni (Forseti hringir.) sem Alþingi samþykkti einróma? Samkvæmt henni ættum við núna að vera með 0,46%, tvöfalt meira, 4 milljörðum til viðbótar. Er þetta ekki til marks um það, ásamt örlögum Þróunarsamvinnustofnunar, að þessi málaflokkur (Forseti hringir.) er í hreinu uppnámi og búið er að ýta honum aftur. Hann hefur enga athygli ríkisstjórnarinnar.