145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að setja þennan málaflokk algjörlega til hliðar. Það felst ekki bara í því frumvarpi sem við ræðum, það felst í þeim áherslum sem hafa verið lagðar, línunum sem hafa verið lagðar í fjárlagafrumvarpinu, í framlagðri áætlun hæstv. ráðherra. Þetta er málaflokkur sem er orðinn hornreka, málaflokkur sem hefði átt að vera okkar stolt og flaggskip okkar. Ég sagði áðan að þar ættum við að hefja okkur yfir hinar pólitísku átakalínur. Það hafa aðrar þjóðir gert. Það hafa aðrar þjóðir gert óháð litrófi þeirra ríkisstjórna sem þar hafa verið við völd af því að þær hafa séð mikilvægi málsins. Mikilvægi málsins er það að við búum í heimi þar sem gæðunum er misskipt. Sú misskipting er ein helsta uppspretta stríðsátaka í heiminum. Hún er ein helsta uppspretta fólksflutninganna sem við erum rétt byrjuð að sjá byrjunina á. Sú misskipting mun líka birtast þegar við skoðum áhrif loftslagsbreytinga. Þess vegna ætti þróunarsamvinna að vera flaggskip okkar til að draga úr áhrifum slíkrar misskiptingar. Þetta er grundvallaratriði.

Ég segi það fyrir mína parta að ríkisstjórnin sem nú situr, og stjórnarmeirihlutinn, er að leggja til aukin framlög til þjóðkirkjunnar. Ef stjórnarmeirihlutanum væri annt um boðskap kirkjunnar, þar sem kemur skýrt fram að ef maður á tvo kyrtla skal maður gefa annan, þá ætti þróunarsamvinnan að skipa þar enn veglegri sess. Ég velti fyrir mér þegar við ræðum um siðferði hvernig nákvæmlega stjórnarmeirihlutanum finnst það samrýmast því sem við höfum kallað kristilegt siðferði í þessu landi, að henda þessum málaflokki svona gjörsamlega til hliðar og þar með þeim boðskap um að það sé okkar skylda að dreifa gæðunum með jafnari hætti en við gerum í heiminum í dag og horfa ekki upp á eymd annarra og líta svo undan.