145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæða þess að ólíkum ríkisstjórnum á ólíkum stöðum í hinu pólitíska litrófi hafi tekist að setja þessi mál og gefa þeim þann sess sem þeim ber sé að fyrir þeim eru svo margháttuð rök. Það eru ekki einungis þau rök sem ég vitnaði til áðan sem snúast bara um kristilegt siðgæði. Það eru líka rök sem snúast um almennan jöfnuð og það eru líka réttlætisrök. En síðast en ekki síst eru það rök sem kalla má líka eiginhagsmunarök. Því að vissulega eru það eiginhagsmunir vestrænna þjóða að styrkja aðrar þjóðir til að hjálpa sér sjálfar til að koma í veg fyrir vandkvæði síðar meir. Ég nefndi áðan loftslagsbreytingar. Getum við reynt að sjá fyrir hver nákvæmlega áhrif þeirra verða á fólksflutninga í heiminum? Við sjáum mikla spádóma um það hvernig það á eftir að verða. Viljum við ekki frekar reyna að styrkja þær þjóðir til að hjálpa sér sjálfar eins og íslensk þróunarsamvinna hefur (Forseti hringir.) snúist um?