145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður hefur, eins og fleiri, nefnt samanburð við stofnanir eins og Vegagerðina. Af hverju erum við að draga Vegagerðina fram? Jú, það er vegna þess að þar fer fram framkvæmd á gríðarlega sérhæfðum verkefnum. Það hefur verið lenskan hingað til að menn setji sérhæfð verkefni sem slík inn í stofnanir þannig að framkvæmdin sé á einum stað og eftirlitið með henni sé annars staðar, þ.e. stefnumörkunin fer fram á Alþingi og svo er eftirlitið úr ráðuneytunum. Í máli ráðherra og ýmissa stjórnarliða hefur komið fram að þeim finnist þetta algjörlega ósambærilegt, það sem verið er að gera í Vegagerðinni annars vegar og í Þróunarsamvinnustofnun hins vegar.

Ég hef áhyggjur af því sjónarhorni og sjónarmiði, ég tel þetta einmitt sambærilegt. Þarna fara fram gríðarlega sérhæfð verkefni. Þetta er fag og það þarf miklar stúdíur að baki hvoru tveggja, hvort sem er vegagerð eða þróunarsamvinnu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta, hvað hún vilji meina að þessi viðhorf stjórnarflokkanna þýði, hvort þetta þýði ekki einfaldlega að þeir telji þróunarsamvinnu ekki eins mikilvæga og vegagerð. Hvort hún sé sammála því og hvort hægt sé að horfa þannig á þetta, að það sé ekkert sambærilegt sem þarna fari fram. Jú, eitt er vegagerð og hitt er þróunarsamvinna, en það eru samt sömu faglegu sjónarmiðin að baki því að halda þessu í sérstakri stofnun.