145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þessi breyting, eins og ég sagði hér áðan, hafi það í för með sér að sá sem ber ábyrgð á ákvörðunum um þróunarsamvinnu sé í raun og veru orðinn pólitískur yfirmaður málaflokksins, þ.e. ráðherra. Ég tel að það sama eigi við um Þróunarsamvinnustofnun og aðrar stofnanir sem byggja á fagþekkingu, segjum Vegagerðina, að þar er stöðugt verið að taka pólitískar ákvarðanir sem fara hér í gegnum þingið og ráðherra hefur frumkvæði að. Síðan eru margháttaðar framkvæmdaákvarðanir sem lúta að vegastæðum, brúarstæðum og ýmsum öðrum slíkum sem byggjast á mikilli fagþekkingu. Okkur fyndist það óeðlilegt ef hæstv. innanríkisráðherra væri stöðugt að kvitta upp á slíkar ákvarðanir að færa vegastæðið um 5 metra hér eða brúarstæði um 7 metra þar.

Það væri til dæmis skrýtið ef menntamálaráðherra væri alltaf að kvitta upp á hvaða rafrænu tímarit ætti til dæmis að kaupa fyrir Landsbókasafnið. Eins og á við um Vegagerðina og aðrar slíkar stofnanir þá er þróunarsamvinna fag og lýtur þeim lögmálum að í því er hægt að öðlast sérfræðiþekkingu. Það hefur verið gert innan stofnunarinnar. Þess vegna tel ég eðlilegt að tiltekin fagstofnun fari með framkvæmd málsins á meðan hinar pólitísku línur eru lagðar af ráðherra og síðan þinginu á hverjum tíma. Það eru stóru línurnar sem á að leggja af pólitíkusunum, en fagþekkinguna ber að rækta.

Ég held að við hljótum að velta því fyrir okkur, þegar þetta er gert, að eðlilega dregur úr vægi fagþekkingar. Eðli máls samkvæmt fara ráðuneyti með breitt svið, þangað ertu ekki endilega að ráða sérfræðinga (Forseti hringir.) með mjög djúpa þekkingu á hverju máli fyrir sig, heldur einmitt fólk með hina breiðu þekkingu á stórum málaflokkum.

(Forseti (ÞorsS): Eins og þingmenn taka væntanlega eftir er klukkan að stríða okkur, en forseti hefur vökult auga á sekúndum.)