145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:02]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og innihaldsmikla ræðu og ekki síst fyrir að hefja umræðuna upp á hið siðferðislega plan og velta fyrir sér þróunarsamvinnu út frá siðferðislegum sjónarmiðum, vegna þess að þau skipta máli. En það er náttúrlega inntak málaflokksins að það er í grunneðli sínu siðferðislegt. Fagið sem slíkt gengur út á þá frægu sögu að maður hjálpi öðrum manni betur með því að kenna honum að veiða heldur en að gefa honum fisk. Það skiptir miklu máli í þessum málaflokki að fagþekkingin sé til staðar og að alltaf sé verið að þróa hana og þroska til betri vegar. Þar hefur nú aldeilis vitnisburðurinn um störf Þróunarsamvinnustofnunar verið mjög jákvæður.

Mig langar aðallega til þess að velta fyrir mér spurningum úr seinni hluta ræðu hv. þingmanns um stofnanauppbygginguna og þá uppbyggingu að verið sé að ganga gegn þróuninni að vera með sjálfstæðar fagstofnanir sem síðan lúta eftirliti og áætlunargerð, sterkum línum frá stjórnendum sínum. Hv. þingmaður hefur reynslu af því sem ráðherra að stýra bæði starfi innan úr ráðuneyti og eins að einhverju leyti sjálfstæðum stofnunum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvaða hættur sér hún í þeirri breytingu? Hv. þingmaður minntist til dæmis á þær faglegu hættur sem felast í upplýsingagjöf. Mig langar til þess að heyra aðeins meira um það.