145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að því sem hv. þingmaður gerði að fyrra umtalsefni sínu þá gerir það mig bara virkilega reiða að sjá það að um leið og stjórnvöld hrósa sér af efnahagsbata hér á landi þá finnst þeim ekki ástæða til að gefa í þróunarsamvinnu. Þau vita ósköp vel hvaða árangri þróunarsamvinna á vegum Íslendinga hefur skilað. Stjórnvöldum er mætavel kunnugt um að okkar aðstoð hefur til dæmis hjálpað konum að eignast heilbrigð og lifandi börn. Að aðstoð okkar hefur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma á þessum fátækustu svæðum heimsins. Að tvíhliða þróunarsamvinna Íslendinga er við nokkur af fátækustu ríkjum heimsins, ríki sem eru kannski neðst í hópi 20 fátækustu ríkja heimsins á meðan við erum í 11. sæti af þeim ríkustu. Við ættum virkilega að velta því fyrir okkur hvort okkur finnst það í lagi. Hvort okkur finnst það bara í lagi að draga úr, í prósentum talið, stuðningi okkar sem skiptir svo miklu fyrir þetta fólk.

Hvað varðar síðari hluta andsvars hv. þingmanns er auðvitað gríðarlegur munur á þessu tvennu; samskipti ráðherra við yfirmenn fagstofnana eru með allt öðrum hætti, við forstöðumenn stofnana annars vegar, sem fara með faglega stjórnun á þeim stofnunum, og svara svo fyrir ráðherra og samfélaginu gagnvart þeirri ábyrgð, eða samskipti ráðherra við deildarstjóra í ráðuneyti hans, sem heyra beint undir ráðherra innan húss. Þau samskipti eru auðvitað með allt öðrum hætti.

Að sjálfsögðu er þetta mikil breyting á því hvernig farið er með málaflokkinn. Ég ætla ekki að draga úr því að innan þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins er metnaðarfullt fólk (Forseti hringir.) og fólk sem þekkir til málaflokksins. En þessi samskipti eru auðvitað með gerólíkum hætti.