145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan kosið að hæstv. ráðherra hefði komið og brugðist við því sem ég sagði í ræðu minni og sagt okkur frá því hvort hann hyggist leggja fram áætlun um þróunarsamvinnu og greini frá því hvort hún verði í takt við fjárlagafrumvarpið. Ég hefði nú kosið að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það því að við erum bara að ræða einn hluta heildarmyndarinnar hér. Hún verður ekki rædd nema í þessu samhengi, hinu alltumlykjandi samhengi þessa metnaðarleysis. Við erum ekki enn búin að sjá nýja tillögu um áætlun um framvindu þróunarsamvinnu, ekki frekar en um svo mörg önnur mál sem ekki koma inn á þing. Á meðan liggur mjög á því að færa þessa stofnun inn í ráðuneytið og ég tek undir það með hv. þingmanni sem hér talaði, að það finnst mér vera angi af hinni stóru mynd metnaðarleysis. Maður hefur ekki neina tilfinningu fyrir því að þar eigi að hefja sig (Forseti hringir.) svolítið upp og yfir þessa umræðu, sýna metnað, djörfung og dug og gefa þótt ekki væri nema 0,46% af vergri landsframleiðslu. Ég er ekki að biðja um að annar af tveimur kyrtlum sé gefinn til þróunarsamvinnu, en að minnsta kosti að þeim markmiðum sé fylgt sem þingið samþykkti fyrir ekkert of mörgum árum í talsvert verra árferði en nú er.