145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð eins og hv. þingmaður mjög svekkt með svör ráðherrans hér áðan þegar hann fór yfir helstu atriðin sem við höfum verið að gagnrýna. Mér fannst það standa upp úr því sem hann sagði að þetta væru einhverjar smotterís formbreytingar, hvað menn væru að æsa sig yfir því. Mér fannst það benda til þess að menn hafi annaðhvort ekki mikinn skilning á hvað þróunarsamvinna er, eða engan áhuga á málinu. Það birtist í því að menn eru einhvern veginn að halda því fram að það sé allt í lagi að þessum málaflokki, umfram aðra málaflokka sem krefjast fagþekkingar, sé rúllað inn í ráðuneyti og settur þar í litla deild. Ég hef áhyggjur af því viðhorfi.

Mér þykir það líka öllu verra að þegar ráðherrann svarar þeirri gagnrýni að þetta hafi farið hratt hér í gegnum nefnd — á tveim dögum eftir að umsagnarfresti lýkur, sem er afar óvenjulegt — þá sé það ekkert skrýtið vegna þess að menn hafi rætt þetta svo mikið á síðasta þingi. Mér finnst menn gera óskaplega lítið úr þessu. Það finnst mér áhyggjuefni vegna þess að þróunarsamvinna á í mínum huga að vera eitt af lykilatriðunum í verkefnum þjóða eins og okkar sem höfum mikið og eigum mikið, erum með þeim ríkustu í heimi. Það er það sem gerir mig að stoltum Íslendingi að við gefum líka af okkur. Ég óttast hvað verður um þessi verkefni þegar þetta er komið inn í ráðuneytið, vegna þess að þá er ógagnsæið meira og ekki eins aðgengilegt hvað menn eru að gera.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að verkefni sem nú eru á sviði Þróunarsamvinnustofnunar gætu (Forseti hringir.) farið að fjara út á komandi árum ef þessir aðilar halda áfram að sitja við stjórnvölinn.