145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er fullt af flottu fagfólki alls staðar í stjórnkerfinu. En þetta snýst ekkert um það, heldur snýst þetta um það hvaða umgjörð þeim er sköpuð til þess að sinna störfum sínum af fagmennsku. Þegar búið er að taka verkefni með þessum hætti, sem eru jafn sérhæfð og raun ber vitni, inn í Þróunarsamvinnustofnun og grauta þeim inn í verkefni ráðuneytisins þá getur það farið að verða háð pólitískum duttlungum hverju sinni hversu mikinn tíma starfsmenn ráðuneyta fá til að sinna þessum málum af þeirri fagmennsku sem þeir best kunna. Það er þetta sem maður hefur áhyggjur af.

Á meðan málaflokkurinn er í sérstakri stofnun þá er erfiðara, fyrir ráðherra sem hefur lítinn áhuga á að sinna þessum málaflokki, að draga mjög hratt úr starfseminni vegna þess að þá verður það í fyrsta lagi svo augljóst og gagnsætt hvað er að gerast af því að þarna er um stofnun að ræða. Í öðru lagi þurfa menn einhvern veginn að koma því hér í gegnum þingið, hvort sem það er í gegnum fjárlög eða breytingar á lögum eða niðurlagningu eins og verið er að reyna að gera hér. Það er kannski það sem maður hefur áhuga á þegar kemur að þessu faglega utanumhaldi þróunarsamvinnu á Íslandi.

Ríkisendurskoðun og fleiri, menn vita þetta alveg. Þingmenn stjórnarflokkanna vita alveg að það að setja saman á einn stað framkvæmd og eftirlit, það er engin fagmennska. Það er ófaglegt. Það er ekki nútímaleg stjórnsýsla. Framkvæmd og eftirlit með sömu framkvæmd á ekki að vera á sömu hendi. Ég veit ekki betur en Ríkisendurskoðun hafi gert við það athugasemdir margoft þar sem það hefur átt við. Í þessu tilfelli þá er það eitthvað sem ég held að geti (Forseti hringir.) orðið erfitt fyrir þetta fag, þróunarsamvinnu, að menn skuli vera að grauta þessu saman á þennan hátt og búa til þá naglasúpu sem hér var nefnd áðan.