145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta mál er til 2. umr. í þinginu. Utanríkisráðherra var viðstaddur alla 1. umr. Hann kom hér síðan í dag og flutti ræðu og var viðstaddur umræðuna í dágóðan tíma.

Ég kom þó aðallega hingað upp til að leiðrétta hv. þm. Helga Hjörvar, þingflokksformann Samfylkingarinnar, sem enn á ný kemur og heldur því fram að það sé einungis einn maður á Alþingi sem styðji þetta mál. Ég ætla að rifja það aftur upp fyrir hv. þingmann að málið fór í gegnum ríkisstjórn, það fór í gegnum báða stjórnarflokkana, bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Það fór síðan til utanríkismálanefndar og var afgreitt úr utanríkismálanefnd með meiri hluta þingmanna í utanríkismálanefnd, bæði á þessu löggjafarþingi og því síðasta, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að það hlýtur að vera stuðningur við málið. Hins vegar fáum við ekki að sjá hvort stuðningur er við málið vegna þess að menn hafa mikla þörf til að tjá sig um það og ekki ætla ég að gera lítið úr því. (Forseti hringir.) Þess vegna hvet ég forseta til að halda þessum fundi áfram þannig að við getum fengið að hlýða á fleiri góðar ræður hjá hv. stjórnarandstæðingum.