145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það sé komið að því núna að Alþingi undir forustu forseta sýni sjálfu sér smá virðingu og geri hlé á þessum fundi þangað til ráðherra er kominn aftur í hús. Ef þær upplýsingar koma að hann ætli ekki að mæta hér í kvöld þá slítum við fundi. Þetta er ekki boðlegt, herra forseti. Ég fer að ætlast til þess að forseti þingsins sýni einhverja reisn fyrir hönd þingsins í þessum samskiptum við utanríkisráðherra. Þetta gengur ekki.

Ég var látinn halda ræðu mína hér á sjötta tímanum í dag gegn mótmælum mínum, áður en hæstv. ráðherra kom. Og bæði þá og í síðustu viku var ég búinn að margóska eftir nærveru utanríkisráðherra til að leggja fyrir hann spurningar. Ég sat á forsetastóli meðan utanríkisráðherra talaði þannig að ekki gat ég farið í andsvör við hann. Ég tel að verið sé að brjóta á rétti mínum sem þingmanns og þingsins um leið ef ég á þess ekki kost að eiga orðastað við utanríkisráðherra vegna þess hvernig hann hagar þessum samskiptum. Það eru alveg nýir tímar á Alþingi ef það hefur enga vigt. Verði ekki orðið við þessum óskum mun ég krefjast fundar í forsætisnefnd, þar sem við sitjum báðir, forseti og ég, og taka þetta mál upp þar.