145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hefði líka hug á því að bera fram spurningar til hæstv. utanríkisráðherra í ræðu minni, en ég ku vera á mælendaskrá fyrir aðra ræðu um þetta mál. Ég velti sér í lagi þeim kosti fyrir mér, þ.e. að setja ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið án þess að leggja stofnunina niður, og mér finnst hann þurfa efnislega umræðu. Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra tæki sig til og útskýrði hvers vegna sú hugmynd er slæm. Ef hún gerir það þarf ekki að tala meira um það.

Hins vegar er vandi okkar á þinginu oft sá að samtalið er ekki milli tveggja póla heldur ræðir aðallega annar póllinn málið út í eitt, en þá verða ekki útkljáðir punktar sem settir hafa verið fram og umræðan heldur ekki áfram. En hún á að halda áfram, hún þarf að halda áfram. Til þess erum við hérna. Hæstv. utanríkisráðherra þarf að bera virðingu fyrir því.