145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í reynd er þetta spurning um það hvort orð skuli standa. Ég skildi forseta í dag með þeim hætti að utanríkisráðherra kæmi hér til að taka þátt í umræðum. Það er ekki hægt að kalla það umræður þó að hæstv. ráðherra sitji hér og hlusti á nokkrar ræður, komi hér í eina ræðu og svari fjórum andsvörum. Það eru engar umræður.

Hér eru þingmenn, þar á meðal hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, sem boðað hafa að þeir vilji eiga orðastað við hæstv. ráðherra og leggja fyrir hann nokkrar spurningar. Það er bara réttur þeirra samkvæmt þingsköpum, samkvæmt þingskyldum hæstv. ráðherra og einnig, sem skiptir kannski mestu, samkvæmt yfirlýsingunum sem hæstv. forseti veitti hér í dag. Ég tek því undir með hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni að það er til skammar. Það er engum bjóðandi að sæta því.