145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá ósk mína að gert verði hlé á fundinum og farið verði yfir það með hvaða hætti málið var afgreitt úr nefndinni og menn velti því í alvöru fyrir sér hvort þetta sé sá háttur sem við viljum hafa á afgreiðslu mála í þinginu.

Þá verð ég líka að segja að núverandi ríkisstjórn er einhvern veginn svo slugsaraleg. Í fyrsta lagi koma menn ekki inn með þingmál, boðuð þingmál. Þrír ráðherrar hafa ekki skilað inn einu einasta máli af þeim sem þeir hafa boðað, eða tveir að minnsta kosti núna, til þingsins á þessu hausti. Í öðru lagi, þegar þeir skila inn einhverjum málum þá telja þeir sig ekki þurfa að fylgja þeim eftir í þinginu eða gera svo lítið sem sitja hér og svara fyrirspurnum þingmanna.

Mér finnst að við eigum að gera hlé á fundinum og fara alvarlega yfir þetta vegna þess að þetta getur ekki gerst trekk í trekk. Þetta er okkur ekki til framdráttar og okkur er ekki ætlað að vinna svona hér.