145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svo sem hugsaði upphátt í andsvari sínu hinu fyrra og velti því upp hvort vera kynni að það sparaðist ekkert nema hugsanlega laun eins forstjóra. Hæstv. ráðherra var gagnrýndur harðlega fyrr í vetur þegar var dregið upp úr honum nánast með glóandi töngum yfir þetta ræðupúlt að ef svo færi að Alþingi mundi ekki veita frumvarpinu brautargengi þá hugðist hann ekki ráða núverandi forstjóra áfram. Þannig skildi ég hann og túlkaði orð hans með þeim hætti.

Hins vegar bar svo við hér í kvöld að hæstv. ráðherra hefur kúvent. Hann hefur fjarlægt þá ógnun sem hann lét dingla yfir höfði forstjórans og lýsti því yfir fyrr í dag að forstjóranum yrði boðið starf innan ráðuneytisins næði breytingin fram að ganga. Við þær aðstæður dreg ég þá ályktun að það hljótist ekkert nema kostnaður af þessu. (Forseti hringir.) Ekki sparast neitt þarna og hægt er að benda á ýmiss konar kostnað sem þetta mun hafa í för með sér.