145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það get ég svo sannarlega. Það sem átt er við með þessu er meðal annars það að hætta sé á, ef þróunarsamvinnan er tekin alfarið inn í ráðuneytið, að aðrir hagsmunir kunni, þegar fram í sækir, að hafa áhrif á það hvernig hún er framkvæmd. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég tel alls ekki að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi það að leiðarljósi en þarna eru skapaðar aðstæður sem skapa vissan freistnivanda.

Tökum dæmi. Í svona breytingu var ráðist, fyrir fimm árum að ég held, í Hollandi. Þar var varað við því að þetta nábýli gæti leitt til þess að þróunarsamvinnan yrði notuð í utanríkisviðskiptapólitískum tilgangi fyrir Hollendinga. Nú, fimm árum síðar, hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að svo sé, að freistnivandinn hafi flust yfir í raunheima sem veruleiki. Það var ekki síst út af þessu, og með hliðsjón af því hvernig þetta gerðist í Hollandi, sem ítalska ríkisstjórnin, sem var að fara yfir sínar áherslur í þróunarsamvinnumálum, komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fara þveröfuga leið. Þar var þróunarsamvinnu komið fyrir innan ráðuneytis eins og Hollendingar breyttu hjá sér og reynslan frá Hollandi leiddi til þess að Ítalir skoðuðu sig dálítið dýpra og komust að því að sama þróun væri þar í gangi, svo að þeir fluttu verkefnin út úr ráðuneytinu, þeir bjuggu til Þróunarsamvinnustofnun. Það sem stórríkið Ítalía, sem er stórríki á sviði þróunarsamvinnu, telur að henti sér best, því er hæstv. utanríkisráðherra að breyta í dag. Með öðrum orðum, þessi vandi sem hv. þingmaður reifar hér, á grundvelli umsagnar ASÍ, hefur birst með raunverulegum hætti. Reyndar væri hægt að taka miklu fleiri dæmi um það í nágrannalöndunum, svolítið eldri, en þetta er nýjasta dæmið.