145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég fór að velta þessu fyrir mér þegar ég las þá umsögn að það gæti verið freistnivandi fyrir embættismenn í ráðuneytinu að fara að víla og díla um einhverja samninga. Ég ætla nú ekki að halda því fram en það er ekkert ólíklegt.

Ég er kannski ekkert á móti því að stofnanir séu sameinaðar eða stokkað upp í embættismannakerfinu og reynt að gera stjórnsýslu skilvirkari en það sem ég er mest hissa á er að verið sé að því við stofnun sem er svona stórkostlega vel rekin og hefur verið rekin með myndarbrag á Íslandi í áratugi.

Ekki síst hefur það komið fram í málflutningi margra stjórnarþingmanna að embættismannakerfið sé allt of stórt og það sem hefur líka vakið athygli mína er að í rannsóknarskýrslu Alþingis er bent á að minnka eigi ráðherraræði og gera þingið sterkara. Mér sýnist þessi ríkisstjórn vera að fara öfuga leið. Hún er að efla ráðherraræðið og hverfa frá þeirri leiðsögn sem gefin var í þessari góðu skýrslu, rannsóknarskýrslu Alþingis.