145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo margt óvenjulegt í störfum Alþingis í dag og þessa dagana. En áður en ég hef mál mitt verð ég að lýsa miklum vonbrigðum með að hæstv. utanríkisráðherra, sem náð var í til að sitja hér undir þriðju eða fjórðu ræðu hv. þm Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann bar fram fimm spurningar, skuli ekki sjá sóma sinn í því að nota þá andsvararéttinn til þess að svara spurningunum strax.

Það er kannski bara í takt við þetta mál. Það er óvenjulegt. Þetta er í raun einn hryllingur og ekki batnar það með framgöngu hæstv. ráðherra, hvorki þegar hann er hér á staðnum né þegar hann er fjarstaddur. Ég veit ekki hvort er betra.

Ég ætla að gagnrýna mjög harkalega, eins og ég hef gert í nokkrum andsvörum, þá flýtimeðferð og flumbrugang sem var í hv. utanríkismálanefnd þegar málið kom núna til þessa þings. Ég ætla að segja það strax að það er engin afsökun fyrir þessari flýtimeðferð, fyrir þessum hroðvirknislegu vinnubrögðum, að málið hafi verið til umræðu á síðasta þingi.

Málið gekk til nefndar 22. september síðastliðinn og 24. september var málið sent út til umsagnar með fresti til 14. október. Fjórir aðilar skiluðu inn umsögn. Þann 15. október, á fimmtudegi, var málið rætt lítils háttar í nefndinni og fulltrúar minni hlutans óskuðu eftir að gestir kæmu til fundarins, eins og gengur og gerist í öllum nefndum. Það er líka kurteisi gagnvart þeim sem senda inn umsögn að menn tali við þá og leyfi þeim að fylgja málinu eftir. Það var rætt lítillega þarna en starfandi formaður, fyrsti varaformaður, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, lýsti því yfir að það væri allt í lagi að fá þessa gesti fyrir nefndina en að málið yrði tekið úr nefndinni daginn eftir. Það skipti engu máli hvað gestirnir segðu eða hvort einhverjir nefndarmenn, sama hvort þeir væru í meiri hluta eða minni hluta, kæmu fyrir nefndina. Ég geri nú ekki ráð fyrir að meiri hlutinn hafi beðið um það vegna þess að ég held að hann hafi fengið þá einu skipun frá hæstv. ráðherra að klára málið sem allra fyrst og rífa það út sama hvað tautaði og raulaði. Það er í takt við annað í þessu máli.

Daginn eftir, þann 16. október, á föstudegi, ekki á fundartíma nefndarinnar, komu gestirnir og á sama tíma var stór alþjóðleg ráðstefna að hefjast í Hörpu þar sem m.a. forseti Íslands flutti ávarp. Ég ímynda mér að utanríkismálanefndarmenn hefðu viljað vera þar. Þá komu gestir fyrir nefndina og málið var rifið út.

Virðulegi forseti. Svona flumbrugangur, svona dónaskapur og svona vinnubrögð eru ekki til að auka virðingu Alþingis. Í nefndinni eru þrír nýir nefndarmenn, þar á meðal formaðurinn sem var að koma í fyrsta skipti til nefndarstarfa á hinu háa Alþingi. Vond voru hennar fyrstu skref. Það er í raun verið að forsmá þingið með svona vinnubrögðum.

Hér er ekki verið að sameina stofnanir eins og gert hefur verið í töluverðum mæli á Íslandi, sérstaklega eftir hrun. Ég minni á að núna er til dæmis verið að sameina Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun. Sá sem hér stendur situr í atvinnuveganefnd sem vann að því máli. Ég kannast ekki við að meiri hlutinn hafi ekki orðið við óskum okkar um að fá gesti á fundi eða tekið við tillögum frá minni hluta eða annað slíkt um málið. Nei, það var gert.

En hér kveður við nýjan tón sem á ættir sínar að rekja til fundar í ríkisstjórn Íslands þar sem lagt var fram ákveðið minnisblað sem ég kem betur að á eftir. Ákveðið var á ríkisstjórnarfundi að til þess að auðvelda sameiningu og fækkun stofnana með færri en fimmtíu starfsmenn að öllum starfsmönnum minni stofnana yrði sagt upp. Það var það nýmæli sem fram kom í fyrsta skipti við sameiningu stofnana þ.e. í frumvarpi um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Strax voru gerðar athugasemdir við það og spurt: Hvað er hér á ferðinni?

Skýrt var frá þessum ríkisstjórnarfundi þar sem ákveðið var að fara þá nýju leið að segja öllum upp en ekki að fara að aðilaskiptalögum. Ég held að upplýsingarnar hafi komið á óvart. Þar kvað algjörlega við nýjan tón. Í meðförum nefndarinnar sáu menn að þetta var vonlaust og meiri hluti nefndarinnar flutti breytingartillögu við það frumvarp sem kvað á um að þeir starfsmenn sem ráðnir verði taki með sér áunnin réttindi. En það þurfti að gera það á þann hátt. Það var ekki það sem ríkisstjórnin hugsaði. Það var ekki það sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hugsaði þegar hann lagði fram frumvarpið. Nei, bara segja öllum upp.

Ég tek þetta sem dæmi um það sem hér er um að ræða. En í tilfelli Þróunarsamvinnustofnunar er ekki verið að sameina stofnanir. Þar er verið að leggja niður stofnun, góða stofnun, fyrirmyndarstofnun til fjölmargra ára að mati Ríkisendurskoðunar, stofnun sem fengið hefur alþjóðlegar viðurkenningar meðal fólks í þessum geira. Hér hefur komið fram að stofnuninni hefur m.a. tekist að afla mikilla fjármuna frá öðrum þjóðlöndum inn í verkefni sem við sinnum í þeim löndum þar sem við aðstoðum okkar minnstu bræður og systur. Það er sem sagt verið að leggja þá stofnun niður og færa starfsemina inn í ráðuneytið.

Ég sé ekki tilganginn með því. Þess vegna hef ég oft haldið því fram og segi það einu sinni enn að ég held að þetta sé ekkert annað en viðbrögð við niðurskurði. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, fóru í mikinn niðurskurð eitt árið og miklu meiri niðurskurður var á ráðuneyti hæstv. ráðherra en öðrum ráðuneytum þannig að ráðuneytið átti illt með að halda áfram með starfsemi sína eftir það. Ég tel að hér sé verið að ná inn stofnun inn í ráðuneytið með þeim peningum sem henni fylgja. Síðan mun koma í ljós á næstu árum þegar starfsmenn hætta að það er ekki endilega víst að ráðinn verði starfsmaður til Þróunarsamvinnustofnunar enda verður þá búið að leggja hana niður og verkefnin falin öðrum mönnum í ráðuneytinu. Með öðrum orðum; þetta er gert af því að ráðuneytið ætlar sér að ná í fjármuni til að reka ráðuneytið. Það er aumt.

Þess vegna hef ég haldið því fram að þetta sé ekkert annað en meinbægni og einhvers konar hatur, eða hvað á að kalla það, hæstv. ráðherra gagnvart þessari stofnun og þeim starfsmönnum sem þar eru. Enda hefur komið fram í umræðunni hvað starfsfólk sagði á fundi utanríkismálanefndar um þetta mál.

Hraðinn í nefndinni, þessir tveir fundir, sýnir að ráðherranum liggur mikið á. Svo segja menn að þetta sé gert í hagræðingarskyni eða til að fjölga störfum o.s.frv. Ég minntist áðan á hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Hvað er verið að gera í ferðamálum? Er verið að sameina eitthvað þar? Nei. Við höfum þar Ferðamálastofu samkvæmt lögum, en þar er verið að búa til nýtt batterí sem kosta á um 100 millj. kr. á ári. Það er alveg með ólíkindum hvernig vinnubrögðin eru.

Ekki hefur neitt voðalega mikið verið rætt um þær umsagnir á Alþingi sem fram hafa komið. Ég ætla að nefna eitt atriði úr umsögn frá Þróunarsamvinnustofnun. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Nefndarmenn í utanríkismálanefnd hafa spurt um hlutverk starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði til að vinna drög að frumvarpi því sem hér er til umræðu og um þátt starfsmanna ÞSSÍ í hópnum.“

Í skipunarbréfi ráðherra segir svo orðrétt, og ég hef leyfi forseta fyrir að lesa það upp. Takið eftir:

„Ég hef ákveðið að fela starfshópi að vinna drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, þar sem lagt verði til að gerð verði sú breyting á skipulagi þróunarsamvinnu að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands renni inn í utanríkisráðuneytið.“

Þetta er bein tilvitnun í skipunarbréf ráðherra. Þarna hefur ráðherrann ákveðið hvað hann ætlar að gera en ekki skoðað þá valkosti sem umræddur Þórir Guðmundsson lagði til í skýrslu sinni.

Og svo stendur:

„Hlutverk starfshópsins var því á engan hátt að kanna eða meta“ — takið eftir; kanna eða meta — „mismunandi valkosti í skipulagsmálum, heldur eingöngu að undirbúa frumvarp á grundvelli tiltekinnar tillögu í skýrslu Þóris Guðmundssonar, Þróunarsamvinna Íslands — skipulag, skilvirkni og árangur. Tveir starfsmenn ÞSSÍ voru skipaðir í hópinn og hafa starfað þar á grundvelli skipunarbréfs. Megináhersla þeirra hefur verið á að gæta hagsmuna starfsfólks við fyrirhugaðar breytingar. Þróunarsamvinnustofnun hvetur áfram til vandaðrar umfjöllunar um frumvarpið og þá skýrslu sem einkum liggur til grundvallar og minnir á að þegar skýrslan lá fyrir í uppkasti lagði stofnunin til eftirfarandi:

„Við hvetjum til vandaðrar umræðu við áhugafólk og haghafa, ekki bara um þessa áfangaskýrslu heldur enn frekar um lokaskýrslu og tillögur. Með þeim hætti fær utanríkisráðherra sem best veganesti til ákvarðanatöku.“

Utanríkisráðuneytið bauð til opins samráðsfundar um áfangaskýrslu Þóris Guðmundssonar. Hins vegar var ekki boðið til neinnar tilsvarandi umræðu um lokaskýrslu hans og tillögur.“

Takið eftir; enginn fundur um lokaskýrslu og tillögur. Það þurfti ekki enda hefur hér komið fram hvernig þetta átti sér stað miðað við svör starfsmannanna á fundi utanríkismálanefndar þar sem utanríkisráðherra á að hafa sagt að hann þyrfti engin rök fyrir málinu.

Síðan segir þar áfram, með leyfi forseta:

„Stofnunin vill t.d. benda á að í skýrslu Þóris Guðmundssonar er að finna villandi staðhæfingar um að ÞSSÍ vinni ekki í framkvæmd þróunarsamvinnu og að hlutverk stofnunarinnar sé fyrst og fremst eftirlit. Þessar staðhæfingar sýna djúpstæðan misskilning á því hvað framkvæmd felur í sér í nútímaþróunarsamvinnu. Skýrslan leggur nokkuð að jöfnu gæðaeftirlit utanríkisráðuneytisins með alþjóðastofnunum sem Ísland styður, og gæðaeftirlit ÞSSÍ, með framgangi tiltekinna verkefna, en það virðist svipað og að leggja að jöfnu eftirlit eigenda með afkomu fyrirtækis og eftirlit tæknideildar með gæðum framleiðslunnar. Hvort tveggja er nauðsynlegt en mjög ólíkt. Þarna er á ferð misskilningur sem væntanlega hefði mátt útrýma með betri umfjöllun á fyrri stigum og þannig tryggja að ráðherra fengi sem bestan grunn til ákvarðanatöku.“

Virðulegi forseti. Á ég að halda áfram þessum lestri? Eða er komið nóg um þá falleinkunn sem þeir sem best vit hafa á og setja hér á blað í umsögn til hv. þingnefndar? Það er þetta sem við þingmenn, sem ekki eigum sæti í utanríkismálanefnd, krefjumst svara við frá utanríkisráðherra á Alþingi. En það er kannski ekkert óeðlilegt við það að hæstv. ráðherra geri lítið af því að svara hér spurningum eða reyni að koma einhverju viti í þetta klúðursmál.

Virðulegi forseti. Á ég að lesa upp það sem starfsmenn segja í umsögn um frumvarpið til utanríkismálanefndar dagsettu 12. október? Með leyfi forseta:

„Undirritaðir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar taka undir athugasemdir og andmæli sem komið hafa fram í umsögnum stofnunarinnar við áform í frumvarpi um að leggja ÞSSÍ niður. Undirrituð telja þvert á móti að æskilegt væri að færa fleiri verkefni á sviði þróunarsamvinnu yfir til ÞSSÍ og efla málaflokkinn á þann hátt, enda eru fyrir því fjölmörg rök. Við leggjum því eindregið til að Alþingi standi við fyrirheit um aukin framlög til þróunarsamvinnu og styðji þá stofnun sem býr yfir mestum faglegum styrk á því sviði á Íslandi.“

Undir þetta rita fjölmargir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar.

Þá kem ég að umsögn Rauða kross Íslands. Sú umsögn er nefnilega mjög merkileg. Ég á nú ekki nema sex mínútur eftir en ég á tíma fyrir fleiri ræður síðar og hyggst nota þær til að koma því efni að.

Í umsögn Rauða kross Íslands eru gerðar athugasemdir við sex greinar frumvarpsins. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Ég fer aðeins yfir umsögn um fyrstu greinina. Með leyfi forseta:

„Rauði krossinn gerir ekki athugasemdir við fyrri málslið greinarinnar en telur að seinni málsliðurinn, sem er svohljóðandi, þarfnist frekari skoðunar:

Það heyrir einnig til markmiða þessara að tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og gæslu friðar og veita mannúðaraðstoð þar sem hennar er þörf.

Að mati Rauða krossins er hér verið að gefa í skyn að markmið með mannúðaraðstoð geti verið að tryggja frið á alþjóðavettvangi. Það getur hins vegar aldrei verið tilgangur hjálparstarfs þótt það geti verið ein afleiðing þess. Að mati Rauða krossins er varhugavert að blanda saman þróunarsamvinnu og friðargæslu, samanber hér gæslu friðar.“

Virðulegi forseti. Má ég endurtaka þetta?

„Að mati Rauða krossins er varhugavert að blanda saman þróunarsamvinnu og friðargæslu, samanber hér gæslu friðar.“

Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þess að hér er gerð breytingartillaga á friðargæslulögunum: Af hverju var ekki farið í að lagfæra það? Ég lít á það sem lið í þeim flumbrugangi og þeim klaufalegu vinnubrögðum sem hér eru þar sem meira er farið fram af kappi en forsjá.

Áfram segir í umsögn Rauða krossins við fyrstu grein:

„Inntak hugtaksins friðargæsla í hefðbundnum skilningi er allt annað en inntak þróunarsamvinnu þó að margt kunni að virðast sameiginlegt. Það á bæði við um forsendur og framkvæmd og því færi betur á því að aðgreina þetta tvennt með ótvíræðum hætti. Þrátt fyrir að telja megi starfsemi friðargæslunnar undir DAC-reglur OECD að verulegu leyti færi betur á því að hafa allt sem lýtur að starfsemi friðargæslu, samanber „gæslu friðar“ í lögum um friðargæsluna en ekki í lögum um þróunarsamvinnu.“

Af hverju er það ekki gert?

Síðan kemur tillaga frá Rauða krossinum um þessa grein. Svo kemur önnur grein og þar segir, með leyfi forseta:

„Lögð verði áhersla á að hlúa að starfsfólki á þann hátt að tryggt sé að reynsla þess og sérfræðiþekking glatist ekki, heldur nýtist í áframhaldandi og mikilvægu framlagi Íslands til þróunarsamvinnu.“

Þetta segir Rauði krossinn.

Áfram mætti halda með greininguna hjá Rauða krossinum en ég ætla að stoppa hér en ítreka það sem ég sagði áðan. Athugasemdir Rauða krossins eru við sex greinar og ég mun koma því í þeim ræðum mínum sem ég á eftir að halda um þetta mál.

Ég á bara þrjár mínútur eftir og kem að lokum að minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til ríkisstjórnar dagsettu 2. mars, 2015. Efni: Réttarstaða starfsmanna við sameiningu og breytingar á stofnunum.

Í minnisblaði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir ríkisstjórn föstudaginn 23. janúar, 2015 var vakin athygli á því að lítið samræmi virtist vera í því með hvaða hætti farið væri með réttindi og skyldur starfsmanna þegar stofnanir væru sameinaðar. Var í því sambandi getið um frumvörp sem lögð hafa verið fram til umfjöllunar Alþingis í þessum efnum og farnar leiðir tvö og þrjú.

Leiðirnar þrjár sem nefndar eru í minnisblaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er eftirfarandi:

1. Öll störf lögð niður. Ný stofnun tekur við verkefnum. Starfsmönnum ekki tryggður forgangur að nýjum störfum. Ný störf auglýst.

2. Öll störf lögð niður. Ný störf búin til hjá nýrri stofnun eða stofnun sem til var fyrir. Starfsmönnum tryggður forgangur að nýjum störfum.

3. Störf ekki lögð niður heldur flutt til annarrar stofnunar með því að hún yfirtekur ráðningarsamninga. Miðað er við að allir haldi störfum sínum.

Þriðja leiðin, sú sem farin hefur verið hingað til, er ekki valin, þ.e. þar sem ný stofnun yfirtekur ráðningarsamninga. Þess vegna flytur meiri hluti atvinnuveganefndar tillögu um frumvarpið um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Svo er talað um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar o.s.frv. og komið inn á það, með leyfi forseta:

„Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, tillögu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um fækkun og einföldun stofnanakerfis og þeirrar stefnu sem fram kemur í frumvarpi til fjárlaga 2014 um að einfalda ríkiskerfið og efla stofnanir með sameiningu þannig að þeim fækki um að minnsta kosti 50 og að stofnanir með færri en 30 starfsmenn heyri til undantekninga, leggur fjármála- og efnahagsráðherra til að ríkisstjórnin samþykki að leið tvö verði farin á kjörtímabilinu þegar réttarstaða starfsmanna við sameiningar er ákveðin. Öll störf eru lögð niður og ný störf búin til hjá nýrri stofnun eða stofnun sem til var fyrir.“

Að lokum þetta: Kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins er að þetta kosti ekki neitt. Ég bendi á tvö atriði: Reiknað er með að 15 manna stýrinefnd geti farið til útlanda einu sinni eða tvisvar á ári. Svo ætla ég að fullyrða að ekkert hefur verið hugsað út í það þegar búið verður að segja öllum starfsmönnunum upp og stofnunin lögð niður, ef menn vilja ekki ráða sig til ráðuneytisins heldur nýta biðlaunarétt sinn.

Ég spyr: Hefur verið skoðað hvað það kostar? Ég segi það vegna þess að í vinnunni í sambandi við sameiningu (Forseti hringir.) Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar hefur komið fram að ekkert hefur verið gert í því að meta það.

Ég hefði getað talað margar 20 mínútur í viðbót og ég á eftir að koma hér oftar til að ræða þetta ólukkansmál.