145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma í andsvar við mig. Ég ber mikla virðingu fyrir því þegar menn koma í andsvar.

Hann talar um að ég líti á það sem stórt mál að leggja niður stofnunina og sameina hana utanríkisráðuneytinu með örfáa starfsmenn. Það er nú ekki alveg svo að það séu örfáir starfsmenn. Sagt er í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins „að 9 starfsmenn starfi nú á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis og að starfsmenn ÞSSÍ séu 38, þar af 9 á aðalskrifstofunni í Reykjavík og 6 á umdæmisskrifstofum, en að annað starfsfólk sé staðarráðið.“ Stofnunin er því stærri en það.

Grundvallaratriðið er þetta: Það sem ég óttast kom fram í ræðu minni, þ.e. hvað þarna er verið að gera, vegna þess að ég hef ekki fengið nein haldbær rök fyrir því að leggja stofnunina niður og sjanghæja hana í ráðuneytið. Það er enginn sparnaður við það, á ekki að vera. Það gæti verið aukakostnaður við það eins og við ræddum um með biðlaunaréttinn áðan.

Varnarmálastofnun, sem var lögð niður fljótlega eftir hrun, sennilega árið 2009, ég var ekki andvígur því, nei. Það var tillaga í þeirri ágætu ríkisstjórn sem þá var, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að leggja hana niður. Hún var nýstofnuð og í sparnaðinum var hún lögð niður.

Hvað varðar dómsmálaráðuneytið sem var innlimað í samgönguráðuneytið þá er það ekki alveg rétt, þótt ég sé alveg viss um að samgönguráðuneytið hefði getað það mjög vel, tekið við dómsmálaráðuneytinu, alla vega eins og það var meðan ég þekkti það vel. En stofnað var innanríkisráðuneyti og núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt því. En öðrum ráðuneytum hefur hún breytt.

Ég get sagt það að lokum að ég sé mjög eftir dómsmálaráðuneytinu að því leytinu til að ég er alveg viss um að hefðum við sérstakt dómsmálaráðuneyti í dag, þá hefðum við alveg sérstaklega góðan dómsmálaráðherra í landinu og nefni ég fyrrverandi formann Lögmannafélagsins, hv. þm. Brynjar Níelsson. Og það eitt út af (Forseti hringir.) fyrir sig verðskuldar það alveg að hafa dómsmálaráðuneyti.