145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. (KLM: Ertu ekki sammála þessu?) Jú, ég er alveg sammála þessu. Ég nefni þetta, ég fer í þessa sagnfræði vegna þess að í þessu eru svona að meginstofni til sömu rökin og felld voru um Varnarmálastofnun. Ég óttast þetta ekki vegna þess að fagþekking á ekkert að hverfa.

Ef hv. þm. Kristján L. Möller er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mér sé slétt sama um málaflokkinn, þá er það rangt. Mér er ekki slétt sama um málaflokkinn, en mér er kannski slétt sama um hvernig formið er á því, hvort það er sérstök stofnun eða hvort hún er í ráðuneytinu. (Gripið fram í: … meinar ekkert …) En mér er ekki slétt sama um hagsmuni skattgreiðenda. Ef ég tel að skattgreiðendur fái meira fyrir peninginn með því að sameina starfsemina og einhver hagræðing náist þá mun ég greiða atkvæði með því. En ef ég tel að einhver rök séu þyngri en svo (Forseti hringir.) og einhver fagþekking tapist þá getur vel verið að ég greiði atkvæði á móti þessu.