145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn við andsvari hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um reynslu af sameiningu stofnana þá get ég sagt það og skal taka fram einu sinni enn. Ég beitti mér fyrir því sem samgönguráðherra að hafin var vinna við að aðskilja framkvæmdaþátt Vegagerðar og Siglingastofnunar og stjórnsýsluapparatið. Ég skipaði tvo starfshópa sem unnu mjög faglega og góða vinnu, ræddi við starfsfólk o.s.frv. Skilaði ráðherra tillögum sem voru um það að sameina framkvæmdahluta Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar og búa svo til stjórnsýslustofnun úr Flugmálastjórn, stjórnsýsluhluta Siglingastofnunar og Vegagerðar, sem heitir Samgöngustofa í dag.

Lykilatriðið að því hvernig sú sameining tókst, sem ég veit ekki annað en að hafi tekist mjög vel, var númer eitt, tvö og þrjú samvinna, samvinna og samvinna við starfsfólk. Halda starfsfólki upplýstu, funda með því og ræða við það og hlusta á sjónarmið þess. Þess vegna held ég að sú sameining hafi tekist svo vel. Hún var ekki gerð með því að skapa illindi, eins og ríkisstjórnin er að gera með þessari samþykkt sinni frá í vor, að segja öllum starfsmönnum upp og endurráða svo. Möguleiki er á að starfsmenn tapi áunnum ýmiss konar réttindum, segjum launalausu leyfi, leyfi á launum o.s.frv. Þetta vildi ég segja.

Hvað varðar kostnaðinn er ekki útilokað að þarna myndist biðlaunaréttur. Starfsmenn eiga rétt, og það kom fram í Hafró- og Veiðimálastofnunarsameiningunni að menn eru ráðnir á misjöfnum tíma, en það er misjafn biðlaunaréttur sem menn eiga. Sérþekking getur glatast ef einhverjir halda ekki áfram og verk geta tafist. Allt hefur það kostnað í för með sér.

Ég tel það því rangt sem sagt er í frumvarpinu að þetta hafi (Forseti hringir.) ekki kostnað í för með sér og vil segja, vegna þess að það kom fram í fréttum í dag, að kostnaður ríkissjóðs við að taka saman skýrslu um málið sem ráðherrann notar sem rök kostaði 9 millj. kr.