145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og svo oft kemur fram í máli hv. þingmanns og hann veltir fyrir sér í upphafi seinna andsvars er það um sátt og að vinna að sátt.

Jú. Það hefði, eins og margoft er búið að segja hér, átt að gera og á enn að gera. Það á að reyna að skapa meiri sátt um málið því að mikill ágreiningur er um það.

Lykillinn að því er meðal annars að ræða við starfsmenn, tala við þá og nýta þekkingu þeirra. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði og hefur sagt í ræðu í dag, nefnilega það að Þórir Guðmundsson nefnir að verkefni fari úr ráðuneytinu til ÞSSÍ og við vitum ekki af hverju sú leið er ekki farin vegna þess að hún er ekki rökstudd. Fram kemur í skipunarbréfi ráðherra: Ég hef ákveðið að fela — ekki að kanna leiðir, hvað er best. Ráðherra hefur ákveðið að fara þessa leið, þá ólánsleið sem hér er verið að ræða og veldur svo miklum deilum.

Það er alveg rétt, auðvitað eiga stofnanir að njóta friðar. Það hefur komið fram (Forseti hringir.) við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Það mál er búið að standa yfir í tvö ár og starfsmennirnir kalla mjög eftir að því máli ljúki vegna þess að þetta skapar óvissu og ýmislegt annað hjá starfsfólki.