145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Þarna kom hún inn á mál sem mér vannst hreinlega ekki tími til að koma inn á. Það hefur verið áberandi sterk og farsæl þróun í þróunarsamvinnu að þróast frá því að ríku löndin, sem allt kunna, komi og leggi það á borðið hvernig eigi að gera hlutina og stjórni því frá toppnum og að utan, yfir í meira samtal við samfélögin sem verið er að hjálpa.

Það á að spyrja samfélögin hvað þau vanti og vinna síðan í því að reyna að veita þá aðstoð. Það er eitt af því sem Þróunarsamvinnustofnun, í sínu sjálfstæði og faglegu vinnubrögðum, hefur verið að fá sérstaklega góða einkunn fyrir, hvernig Þróunarsamvinnustofnun hefur haft sjálfstæði og faglega stjórn á þessu samstarfi og vali á samstarfsaðilum. Það hvernig Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur starfað beint með héraðs- og sveitarstjórnarstiginu, í löndum sem búa við frekar óburðugt stærra stjórnkerfi, hefur skilað sér sérstaklega vel til verkefna. Það er ekki síst á grundvelli þessa sem Þróunarsamvinnustofnun hefur verið treyst fyrir fjármunum frá öðrum löndum og öðrum aðilum. Henni er treyst faglega til að fá sem mest út úr þeim fjármunum. Vissulega er hætta á því með aukinni miðstýringu að þetta glatist.