145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er líka áhugaverður punktur. Halda menn að kannski séu minni líkur á því að fjármunir að utan, sem Þróunarsamvinnustofnun hefur verið treyst fyrir að fara með af öðrum aðilum en íslenska ríkinu, fari til ráðuneytis hjá öðru ríki í stað þess að fara til sjálfstæðrar stofnunar? Það eru ýmsir núansar á þessu sem mér finnst mikilvægt að menn gefi sér tíma til að skoða. Ég sé hvergi neitt um að fjallað hafi verið um þetta í nefndinni og mat lagt á það þegar ákveðið var að kippa þessu máli út á þeim hraða sem raun ber vitni. Það þykir mér miður. Ég mundi vilja sjá þetta metið. Er það venjan að erlendir samstarfsaðilar láti ráðuneyti annarra ríkja fá fjármuni? Hugsanlega, ég bara veit það ekki. Það væri þá áhugavert að fá dæmi um það.

Varðandi umræðuna hér hefur mér þótt dálítið óþægilegt hvernig þeir örfáu stjórnarþingmenn sem koma upp og reyna að verja málið gefa í skyn að við séum að kalla starfsmenn ráðuneytisins ófaglega eða láta að því liggja að þeir muni misfara með fé, eins og sagt var hér áðan. Mér finnst sú umræða algerlega óþolandi. Það sem við erum að gagnrýna er einmitt það að þessir fagmenn fái ekki nægilega skýra umgjörð til að sinna störfum sínum faglega en séu komnir með pólitíska valdið allt of nálægt sér. Þegar pólitíska valdið er komið svo nálægt fjármununum er hætt við að menn fari að kalla eitt og annað þróunarsamvinnu sem er síðan, að okkar mati, á mjög gráu svæði, er að minnsta kosti ekki sú þróunarsamvinna sem við þekkjum í dag.