145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:51]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er leiðinlegt að heyra í umræðunni þegar gagnrýni okkar á þessar tillögur er snúið upp í vantraust á starfsmenn utanríkisráðuneytisins. Ég tók það fram í ræðu minni að ég tel alls ekki að það sé mikið verra fólk í því húsi en í húsinu við hliðina þar sem Þróunarsamvinnustofnun starfar. Þvert á móti. Ég held að það búi góður hugur á báðum stöðum og hann mun auðvitað flytjast yfir með starfsfólki, verði það samþykkt að stofnunin verði sett inn í ráðuneytið.

Hins vegar verður ramminn utan um faglegu vinnubrögðin allt annar í ráðuneytinu og þar myndast ákveðinn freistnivandi sem aðrar þjóðir hafa upplifað, þar sem mikil vandamál koma upp ef þróunarsamvinna fer að tengjast utanríkisviðskiptalegum hagsmunum. Upp koma mikil vandræði við þróunarsamvinnu ef hún er í of miklu samkrulli við friðargæslu, svo maður tali nú ekki um það sem kalla má hernaðarlega starfsemi. Tenging stofnana við ríkisstjórnir sem jafnvel hafa tekið þátt í hernaði hefur hreinlega bitnað á þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð vestrænna ríkja.

Ég ætla ekki að þessi stofnanaflutningur verði til stórkostlegra breytinga. Hins vegar er hættan fyrir hendi gagnvart hinni faglegu umgjörð (Forseti hringir.) sem ver faglega starfið frá hinum pólitíska þætti.