145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir ræðuna að minnsta kosti í einu andsvari. Auðvitað er ég ánægður með þær meginniðurstöður sem hann hefur komist að í þessu máli og dró mjög vel saman með rökum í ræðu sinni. Áhugaverðast fannst mér þó að heyra hann segja tíðindin af upplifun sinni af þessum málum á alþjóðavettvangi og á fundum með skoðanabræðrum, og -systrum hjá frjálslyndum demókrötum og dæmið frá Bretlandi. Það er einmitt mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur og maður getur spurt sig: Hvers eigum við að gjalda hér að sitja uppi með hægri stjórn eða hægri-miðjustjórn sem fer þveröfuga leið við það sem orðið hefur hin pólitíska niðurstaða í Bretlandi? Það er áhugavert.

Fyrri ríkisstjórn í Bretlandi setti sér markmið í þessum efnum, eins og hv. þingmaður nefndi. Og eftir því sem ég best veit hefur núverandi ríkisstjórn þar, hrein íhaldsstjórn, lýst því yfir að hún muni ekki hvika frá þeim markmiðum og hefur náð hlutfalli þróunarsamvinnu af hálfu breskra stjórnvalda upp í hin tilgreindu 0,7%.

Ef við berum saman stöðu efnahagsmála í Bretlandi og á Íslandi eru Bretar enn að kljást við halla á ríkisbúskapnum. Þeir eru með meira atvinnuleysi en við. Ég geri ráð fyrir að skuldir Íslands séu að fara niður úr því sem þær eru í Bretlandi. Margar kennitölur eru orðnar hagstæðari á Íslandi í dag en þær eru og voru hjá Bretum þegar þeir ákváðu, þrátt fyrir umtalsverða efnahagserfiðleika, að hvika ekki frá þessu markmiði.

En hér erum við á niðurleið og upplifum nú fimmta hagvaxtarárið í röð. Það er mikið umhugsunarefni að þessum málaflokki skuli vera svona komið á Íslandi, að hann sé þetta mikil afgangsstærð. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður getur svo sem sagt um það, en kannski ættum við að stinga upp á því að núverandi stjórnarflokkar bregði sér (Forseti hringir.) til Bretlandseyja og kynni sér stöðu mála hjá skoðanasystkinum sínum þar.