145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég verð að taka undir það að mér finnst mjög leiðinlegt hvernig meiri hlutinn, þar með talið þingmenn meiri hlutans og hæstv. utanríkisráðherra, lætur undir höfuð leggjast að svara mjög skýrum spurningum frá minni hlutanum. Þetta mál er mörgum mikið hjartans mál og snýst ekki bara um að leggja stofnunina niður og færa starfsemina inn í ráðuneytið, heldur svo margt annað. Ég tel það til bóta, forseti, ef við hættum svona vinnubrögðum. Það er mjög ljótt hvernig þetta mál var tekið úr nefnd og mér finnst einhvern veginn kominn tími til að við reynum að koma okkur upp úr skotgröfunum.

Hér hafa komið tillögur að lausnum sem mér finnst vert að meiri hlutinn hlusti á. Það sem mér finnst langmikilvægast er að hv. þingmenn meiri hlutans taki þátt í samræðunni, það er mjög mikilvægt. Eins og hv. þm. (Forseti hringir.) Helgi Hrafn Gunnarsson benti á skapar samræðan oft mun styttri umræður.