145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Úlfalda úr mýflugu; þetta heyrði ég mikið rætt hér í gær. Við erum sem sagt að gera úlfalda úr mýflugu þegar við mótmælum því, hvað varðar málið efnislega, að menn stefni þróunarsamvinnu, stuðningi Íslendinga við sína minnstu bræður í heiminum, út í fullkomna óvissu. Það er að gera úlfalda úr mýflugu. Við erum sem sagt að gera úlfalda úr mýflugu þegar við mótmælum því að fólk keyri mál af þessu tagi í gegnum nefndir (Gripið fram í: Já.) í andstöðu við minni hluta tveimur dögum eftir að umsagnarfrestur rann út, án þess að tala við alla þá sem sendu inn umsagnir. Það er að gera úlfalda úr mýflugu.

Þetta er ekkert annað en valdníðsla á Alþingi. Það er hárrétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þegar hún orðaði það svo. Þannig upplifir maður þetta. Nú er sá sem á að heita forseti þingsins alls að taka þátt í þessu. (Forseti hringir.) Í staðinn fyrir að reyna að leiða málið í jörð með sátt, eins og við höfum boðið, ætlar hann að halda ófriðnum um þróunarsamvinnu áfram inn í kvöldið.