145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ræðan sem kom frá hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins hjálpar ekki. Það hjálpar ekki að hæstv. utanríkisráðherra lætur ítrekað undir höfuð leggjast að svara einföldum fyrirspurnum frá þingmönnum. Mér finnst það virðingarleysi gagnvart þinginu, ég verð að segja alveg eins og er, alveg eins og það virðingarleysi sem sami hæstv. ráðherra viðhafði þegar hann ákvað að sniðganga þingið varðandi uppsagnarbréf Íslands að aðildarviðræðum við ESB. Þetta er nákvæmlega sama fyrirlitningin gagnvart Alþingi. Mér finnst það virkilega alvarlegt.

Ég mun ekki setja mig upp á móti kvöldfundi, þvert á móti. Mér finnst hins vegar að þegar við erum að tala um jafn mikilvægt mál sem alltaf hefur verið samstaða um hérlendis eigum við að vanda okkur betur í því hvernig við vinnum þessi mál. Við eigum að gera það á þverpólitískan máta og ná sátt. Ég skora á þingheim, sér í lagi formann utanríkismálanefndar, að finna einhverja sáttaleið í þessu viðkvæma og mikilvæga máli.