145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún orðaði það svo áðan að hér væri verið að halda þinginu í gíslingu. Þetta snýst nákvæmlega um það (Gripið fram í: Já.) að halda þinginu í gíslingu þannig að hér er verið að halda okkur frá því að ræða mjög mikilvæg mál sem eru bæði á dagskrá þingsins og í farvatninu.

Ég styð eindregið tillögu hæstv. forseta. Það er mikilvægt að þeir þingmenn sem vilja ræða þetta mál frekar fái tækifæri til þess inn í kvöldið og nóttina og við höldum því áfram næstu daga ef svo ber undir. Það er greinilega meiri áhugi hjá þeim en almennt í samfélaginu fyrir þessu máli vegna þess að ég held að umsagnir sem bárust nefndinni um þetta mál hafi verið fjórar. Það sýnir kannski áhuga almennings og annarra á þessum vettvangi fyrir málinu. Það tekur kannski ekki mjög langan tíma í nefndarstarfinu að fara yfir (Forseti hringir.) fjórar umsagnir og fá (Gripið fram í.) gesti í tengslum við það. Það er sjálfsagt að gera það, enda skilst mér að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá er tækifæri þar fyrir nefndarmenn minni hlutans (Forseti hringir.) að óska eftir því að fá gesti á fund nefndarinnar.