145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst stjórnarliðar sýna ótrúlegan hroka og yfirlæti: Þið getið bara talað inn í kvöldið og talað við ykkur sjálf og svarað ykkur sjálfum. Er þetta ekki Alþingi Íslendinga þar sem við eigum að taka rökræðuna? Þetta mál er þess eðlis að það á að reyna að ná breiðri pólitískri samstöðu um það. Þetta er Þróunarsamvinnustofnun Íslands, stofnun sem hefur fengið hrós úr öllum áttum fyrir gott starf og góðan rekstur. Við getum auðvitað rætt þetta mál áfram en við köllum eftir því að stjórnarliðar sýni þann dug að þora að taka þessa umræðu, ekki bara eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson segir: Þetta er gott mál, þetta er gott mál.

Hvernig væri að rökstyðja það fremur en að vera með svona yfirlýsingar? Það eru engin rök fyrir því hvers vegna þetta er betra en núverandi fyrirkomulag sem hefur fengið (Forseti hringir.) þá viðurkenningu á alþjóðavettvangi sem til þarf. Menn þurfa að rökstyðja sitt mál, ekki bara vera með eitthvert yfirklór.