145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef ég teldi líkur á því að hér yrði eitthvert samtal við stjórnarmeirihlutann í kvöld mundi ég greiða atkvæði með kvöldfundi, en ég reikna ekki með því, ekki eftir það sem við sáum hér í gær þegar hæstv. utanríkisráðherra mætti vissulega í þingsal og sat hér á meðan hv. 4. þm. Norðaust. varpaði fram spurningum og hélt þrusuræðu sem hæstv. utanríkisráðherra virtist ekki hafa neinn áhuga á. Enginn fór í andsvar, enginn fór að þæfa málið og allir biðu eftir því að slíkt samtal ætti sér stað. En það átti sér ekki stað þrátt fyrir að það hafi verið alveg skýrt að tilgangurinn með því að fá hæstv. utanríkisráðherra á svæðið væri að eiga við hann einhvers konar samskipti. Hann hafnaði því. Þess vegna trúi ég því ekki að stjórnarmeirihlutinn muni taka þátt í umræðunni þótt lengja eigi þingfund. Því greiði ég atkvæði gegn tillögunni.