145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að niðurstaðan er sú að við gefum minni hlutanum og þeim sem áhuga hafa á að ræða þetta mál frekar tækifæri til að ræða það fram eftir kvöldi eða nóttu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gefa þeim þann tíma sem þau telja sig þurfa, en við höfum auðvitað önnur brýn mál til að huga að í þinginu sem við þurfum að koma á dagskrá sem fyrst.

Ég vona að þeir þingmenn sem eiga eftir að tjá sig í málinu noti þá tækifærið vel og komi síðan málinu til nefndar sem allra fyrst. Þar gefst þá tækifæri til að fjalla um þau ágreiningsatriði sem upp hafa komið í þessari umræðu og þar væri væntanlega hægt að kalla bæði ráðherra og aðra gesti til skrafs og ráðagerða um ágreiningsatriði og fara yfir þau. Málið kæmi síðan í þeim búningi sem meiri hluti nefndarinnar býr svo um til þingsins til atkvæðagreiðslu í 3. umr. Ég sé ekki ástæðu til að tefja það mikið lengur en fagna því að við skulum ætla að gefa minni hlutanum (Forseti hringir.) tækifæri til að ræða þetta inn í kvöldið og nóttina. (Gripið fram í: Þakka þér kærlega fyrir.)