145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég hef í þessari viku vakið máls á kjörum eldri borgara og öryrkja og það ekki að ástæðulausu. Ég hef gert mér nokkra grein fyrir að staða þessara hópa hefur á engan hátt verið ásættanleg en ég skal viðurkenna að á síðustu vikum hafa augu mín opnast betur en áður fyrir bágum kjörum sem allt of margt fólk í þessum hópum býr við. Segja má að augu mín hafi galopnast fyrir því síðasta laugardag á opnum fundi Öryrkjabandalagsins á Grand Hótel. Það sem þar kom fram um kjör öryrkja gerði mig mjög dapran og hugsi um hvar samfélag okkar er statt. Viljum við raunverulega samfélag án aðgreiningar þar sem börnin okkar og fullorðið fólk fær tækifæri til að vera með, njóta lífsins og leggja sitt af mörkum þrátt fyrir einhverjar meðfæddar skerðingar eða skerðingar vegna slysa eða sjúkdóma?

Gleymum því aldrei að við getum öll orðið fyrir slysi í dag eða á morgun, eða orðið fyrir heilsutjóni sem skerðir starfsgetu okkar og þar með tækifæri til að vera með. Viljum við samfélag sem lagar sig þá að þörfum okkar, að aðstæðum okkar og barna okkur og leyfir okkur að vera með eftir því sem við getum og viljum? Eða viljum við samfélag sem hafnar okkur og börnunum okkar þá og dæmir okkur til útilokunar og miklu minni lífsgæða en ástæða er til?

Herra forseti. Okkar er valið og okkar er ábyrgðin. Samfélag án aðgreiningar þar sem allir fá tækifæri til að vera með er ekki átaksverkefni með tiltekinn upphafstíma og ákveðinn lokadag. Það er viðfangsefni okkar allra alla daga ársins, ekki bara okkar sem hér sitjum heldur einnig þeirra sem stjórna ferðinni á vinnumarkaði og stýra fyrirtækjum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

Ég ætla að leyfa mér enn og aftur að skora á alla þingmenn að taka undir ályktun og áskorun fundar Öryrkjabandalagsins síðasta laugardag og tryggja þannig þessum hópum, öldruðum og öryrkjum, mannsæmandi líf, og stíga með því stórt skref í þá átt að losa þá úr viðjum fátæktar og félagslegrar einangrunar.

Síðan minni ég á að í dag er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Klukkan sjö í kvöld verður ljósaganga frá Arnarhóli og ég skora á ykkur að mæta.


Efnisorð er vísa í ræðuna