145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þegar forseti Íslands hélt ræðu við upphaf þings beindi hann þeim orðum til þingmanna um að honum þætti ekki við hæfi að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningu. Ég gagnrýndi forsetann fyrir þau afskipti af störfum nefndar sem þá var að störfum og er enn. Merkilegt nokk virðist sem sú vinna sé komin í algerar ógöngur, alla vega er næsta ljóst að ekki verður farið í breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningu nema einhvers konar kraftaverk verði og þingmenn verði jafnvel í vinnunni fram að áramótum, því að tíminn er búinn.

Mig langar til að vekja athygli þingmanna á þessu. Þarna hefur forseti lýðveldisins bein afskipti af störfum þingsins í jafn veigamiklu máli og þessu. Mér finnst það mjög alvarlegt og furðulegt að við þingmenn látum það óátalið, sem þurfum oft að sitja undir þeim ásökunum að við séum eingöngu einhvers konar stimpilpúði eða að reyna að sýna aðhald gagnvart stimplinum sem kemur frá framkvæmdarvaldinu. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann meiri hlutans gagnrýna þá aðför að lýðræðinu, engan. Það hryggir mig. Ég verð að segja að mér finnst það pínulítið aumt. Við eigum að standa með þingræðinu. Við þingmenn eigum að standa með þingræðinu og það gerum við ekki.


Efnisorð er vísa í ræðuna