145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:50]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera stöðu Grímseyjar að umræðuefni mínu í dag og óska eftir að eiga orðastað við hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Fyrir stuttu ákvað ríkisstjórn Íslands að tillögu forsætisráðherra að grípa til samþættra aðgerða til að styðja við byggð í Grímsey. Upphaf þeirrar vinnu má rekja til þess að 8. apríl síðastliðinn komu þingmenn Norðausturkjördæmis saman ásamt fulltrúum Akureyrarbæjar, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Grímseyinga til að ræða þá erfiðu stöðu sem upp er komin í Grímsey.

Í kjölfarið var skipaður aðgerðahópur. Í honum sátu hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson og Steingrímur J. Sigfússon, tveir fulltrúar frá Íslandsbanka, einn frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar ásamt fulltrúa útgerðaraðila og var unnið í samstarfi við hverfisráð Grímseyjar. Aðgerðahópurinn skilaði af sér skýrslu til forsætisráðherra í lok maí. Í framhaldinu skipaði ráðherra faghóp sem fékk það hlutverk að útfæra og skoða tillögur aðgerðahópsins.

Í stuttu máli ganga tillögurnar í fyrsta lagi út á það að styrkja stöðu útgerðar frá Grímsey þar sem úthlutað verður 400 tonna byggðafestukvóta, en unnið er að því að gefa út reglugerð samhliða því. Í öðru lagi að bæta samgöngur við Grímsey, í þriðja lagi að framkvæma hagkvæmniathugun og lækkun húshitunarkostnaðar og í fjórða lagi að gera verkefni um brothættar byggðir. Vinnuhópur forsætisráðherra útfærði tillögur heimamanna í samvinnu við fagstofnanir og fagráðuneyti og skilaði svo tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar sem samþykkti þær 17. nóvember síðastliðinn.

Það er jákvætt að tillögurnar komu frá heimamönnum og fagaðilar vinna síðan að útfærslu. Þá aðferðafræði tel ég vera til fyrirmyndar og á von á því að þetta verði til heilla fyrir Grímsey, nyrstu byggð landsins.

Þess má geta að bæjarstjórn Akureyrar sendi frá sér samhljóða ályktun þar sem niðurstöðum er fagnað.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur um viðhorf hennar og þingflokks Bjartrar framtíðar til þessa vinnuferlis og þeirra aðgerða sem kynntar hafa verið.


Efnisorð er vísa í ræðuna