145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýja spá Isavia um fjölda ferðamanna á næsta ári sem að sönnu er gerð út frá forsendum flugvallanna en hún skiptir máli. Nú stefnir í að fjölgun erlendra ferðamanna verði á þessu ári 30% og spáin á þeim grunni fyrir næsta ár er fjölgun í viðbót ofan á þann grunn upp á 22,2%. Samkvæmt því má búast við að erlendir ferðamenn sem heimsækja landið á næsta ári verði 1.540 þúsund.

Þessar tölur vekja margar spurningar um það hvernig við erum í stakk búin til að takast á við aukningu ár frá ári af þessari stærðargráðu því að hér er um veldisvöxt að ræða. Flestum ber saman um að ástandið í sumar hafi verið þannig að allt hafi verið hér á ýtrasta tampi, ef ekki umfram það. Því miður er ekki hægt að segja að viðbúnaður okkar og það hvernig við höfum notað tímann undanfarin nokkur síðustu ár hafi verið fullnægjandi í þeim efnum. Það er til dæmis ljóst að nánast ríkir stefnuleysi í málaflokknum. Menn hafa með öllu klúðrað því sem snýr að tekjuöflun eða gjaldtöku og stýringu í gegnum eitthvað slíkt og ríkir nánast upplausnarástand í þeim efnum eftir að hæstv. ráðherra gafst upp með náttúrupassann. Einhver stjórnsýslustofnun ferðamála sem á að vera skel utan um enga stefnu mun ekki skipta miklu í þeim efnum þótt það kosti 80 milljónir af ríkisfé að reka hana.

Ég held að það sé orðið ákaflega brýnt að taka þessi mál til mjög rækilegrar skoðunar ef ekki á illa að fara af ýmsum ástæðum, út frá því hvað innviðir landsins þola og bætir þar hörmungarástand í fjárveitingum til vegagerðar og skortur á samgönguáætlun ekki úr, en ég er líka farinn að velta mikið fyrir mér hvort við Íslendingar þurfum ekki að fara að hyggja að okkur í hagstjórnarlegu tilliti þegar þessi grein vex svona hratt og vægi hennar eykst svona hratt í hagkerfinu, sveiflótt sem hún getur verið, og huga að ýmsum vörnum í því sambandi. Ég býð ekki í það, herra forseti, ef þetta ástand á að (Forseti hringir.) halda svona áfram, jafnvel í einhver ár í viðbót.


Efnisorð er vísa í ræðuna